Lánshæfismatsfyrirtækið Fitch Ratings birti í dag mat á lánshæfi Íslandsbanka og er bankinn metinn í fjárfestingarflokki með einkunnina BBB-/F3 með stöðugum horfum.

„Íslandsbanki er fyrstur banka á Íslandi frá árinu 2008 til að komast í fjárfestingarflokk. Lánshæfismatið endurspeglar sterka stöðu bankans á innlendum markaði og góða eiginfjárstöðu hans,“ segir í tilkynningu frá bankanum.

Í lánshæfismati Fitch kemur fram að endurskipulagning stórs hluta lánasafnsins frá árinu 2008 er nú lokið og að bankinn hafi verið varfærinn í mati á greiðslugetu viðskiptavina niðurfærðra lána. Fitch telur Íslandsbanka jafnframt vel undirbúinn undir afléttingu gjaldeyrishafta.

„Við erum mjög stolt af því að Íslandsbanki, fyrstur banka á Íslandi frá árinu 2008, sé nú kominn í fjárfestingarflokk. Þetta mun auka aðgengi okkar að fjármögnun bæði hér á landi en ekki síst erlendis. Þessi breyting felur í sér að mun fleiri fjárfestar geta nú keypt skuldabréf bankans sem getur svo haft áhrif á bæði eftirspurn og verðlagningu bréfanna. Með betri kjörum erlendis getur bankinn stutt enn betur við viðskiptavini okkar sem þarfnast erlendrar fjármögnunar. Þetta er uppskera mikillar og góðrar vinnu starfsfólks bankans sem hefur miðað að því að byggja upp framúrskarandi fyrirtæki sem eftir er tekið,“ segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.