Nýjasti gengislánadómur Hæstaréttar vekur upp þá spurningu hvort Íslandsbanki eignist skaðabótakröfu á ríkissjóð. Þetta segir Friðbert Traustason, formaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, í samtali við Vísi . Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að gengistryggt lán Íslandsbanka er löglegt.

Í lok árs 2010 var samþykkt frumvarp sem Árni Páll Árnason, þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, lagði fram um leiðréttingu gengistryggðra lána. Þar sem einhver lánanna teljast nú lögleg telur Friðbert að ríkið gæti verið skaðabótaskylt. „Þess vegna vaknar sú spurning hvort Árni Páll hafi gert ríkið skaðabótaskylt með því að skylda fjármálafyrirtæki til að endurreikna lán eins og þau væru ólögmæt en þegar upp er staðið reynast þau lögmæt ," segir Friðbert.

Hann segir dóminn ekki breyta þeim niðurstöðum sem áður voru komnar. Þar skipti orðalag dómanna máli og sá nýjasti feli ekki í sér stefnubreytingu Hæstaréttar varðandi gengistryggðu lánin.