Íslandsbanki samþykkti á hluthafafundi í dag tillögu þess efnis að það myndi gefa 203 listaverk í eigu bankans til Listasafns Íslands eða annarra viðurkenndra safna.

Verkin eru gefin með því skilyrði að þau listaverk sem að bankinn nýtir í starfsemi sinni verði áfram í vörslu bankans en þau eru 51 talsins. Gerður verður vörslusamningur milli bankans og Listasafns Íslands til fyrirfram skilgreinds tíma. Hin 152 verkin verða gefin og afhent Listasafni eða öðrum viðurkenndum söfnum.

Tillagan var samþykkt með atkvæði hluthafa. Harpa Þórisdóttir, safnstjóri Listasafns Íslands og Björn Steinar Pálmason, fjármálastjóri safnsins, veittu listaverkunum viðtöku á fundinum.

Gjöf Íslandsbanka, sem er í eigu ríkisins, til ríkislistasafnsins kemur í aðdraganda skráningar bankans á markað í sumar. Samhliða skráningunni er stefnt að því að ríkið selji allt að 35% hlut í bankanum.