Íslandsbanki hefur gefið nýtt leitartæki til Krabbameinsfélags Íslands, segir í fréttatilkynningu.

Þetta er stafrænt röntgentæki sem nýtist til forvarnarstarfs Krabbameinsfélagsins í leit að meinum í brjóstum kvenna. Andvirði leitartækisins er 40 milljónir króna.

Starfsemi leitarsviðs Krabbameinsfélagsins beinist í dag að því að greina forstig leghálskrabbameins hjá konum á aldrinum 20 til 69 ára og brjóstakrabbamein hjá konum á aldrinum 40 til 69 ára.

Árangur þessa starfs er ótvíræður þar sem dánartíðni leghálskrabbameins hefur lækkað um 73% og brjóstakrabbameins um 32%. Leitarstöð annast einnig skoðanir á konum með einkenni óháð aldri.

Nýja tækið byggir á stafrænni röntgentækni sem gerir mögulegt að færa myndir beint inn á tölvu í stað hefðbundinna röntgenfilma.

Tæknin gefur möguleika á nákvæmari greiningu lítilla æxla og gagnast aðferðin best í brjóstum yngri kvenna og kvenna með þéttan brjóstavef.

Auk þess er mun minni geislaskammtur með þessari nýju tækni en áður hefur þekkst. Það dregur úr geislun sem sumar konur óttast og hefur komið í veg fyrir að þær mæti til leitar.

Tryggingastofnun greiðir ekki fyrir forvarnarstarf og byggir fjármögnun núverandi leitarstarfs því alfarið á þjónustusamningi við ráðuneyti heilbrigðismála.

Núverandi röntgentækjabúnaður deildarinnar þarfnast hins vegar endurnýjunar að öllu leyti. Líf tími tækjabúnaðarins er eitt til þrjú ár í viðbót.

Endurnýjun tækjabúnaðar og tækninýjungar er ekki hluti þess samnings og því ljóst að slík endurnýjun byggir á velvilja kostunaraðila.