Í samræmi við tilkynningu frá Íslandsbanka hf. 12. ágúst s.l. hefur bankinn gert formlegt tilboð í öll hlutabréf í KredittBanken ASA. Tilboðið hefur verið sent til hluthafa KredittBanken ASA skv. hluthafaskrá eins og hún er í dag. Í tilboðinu býðst Íslandsbanki hf. til að kaupa hlutabréf í KredittBanken á verðinu 7,25 norskar krónur sem er 32% yfir lokagengi11. ágúst 2004. Tilboðstímabilið mun verða frá og með 13. september til og með 1. október.

Stjórn KredittBanken ASA hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir mæla með því við hluthafa KredittBanken að þeir taki tilboði Íslandsbanka hf. Stjórnin hefur jafnframt ákveðið að samþykkja tilboðið fyrir sína hönd og þeirra félaga sem þeir eru í forsvari fyrir.

Íslandsbanki hf. á í dag 4.704.470 hluti í KredittBanken ASA sem jafngildir 9,9% eignarhlut og hefur fengið fyrirfram samþykki frá 30,85% hluthafa KredittBanken fyrir tilboðinu.

Íslandsbanki hf. mun greiða hluthöfum sem samþykkja tilboðið 2,1% vexti frá og með þeim tíma sem þeir samþykkja tilboðið og til þess dags sem greiðsla verður innt af hendi. Tilboðið er gert með fyrirvara um samþykkti 90% hluthafa og að gefin verði heimild til kaupanna af hálfu lögbærra yfirvalda í Noregi og á Íslandi.

Um Kredittbanken ASA:

Kredittbanken AS var stofnaður árið 1992 og hefur sérhæft sig í þjónustu við lítil og meðalstór fyrirtæki í Álasundi og nágrenni. Starfsmenn eru 25. Eigið fé Kredittbanken 30. júní s.l. jafngilti um 3,8 milljörðum íslenskra króna og hagnaður á fyrri hluta ársins nam rúmum 60 milljónum íslenskra króna. Heildareignir Kredittbanken í lok júní jafngiltu 37,4 milljörðum íslenskra króna og útlán 27,2 milljörðum. Eiginfjárhlutfall mælt á CAD grunni var 16%, þar af A-hluti 11,2%. Hlutabréf félagsins eru skráð í kauphöllinni í Ósló.