Íslandsbanki hefur fyrstur fjármálafyrirtækja á Íslandi gerst aðili að Grænni byggð. Grænni byggð (Green Building Council Iceland) er samstarfsvettvangur um sjálfbæra þróun byggðar og var stofnað árið 2010. Samtökin eru hluti af World Green Building Council og eru rekin án hagnaðarmarkmiða.

Samtökin vinna í rannsóknar- og þróunarverkefnum og halda reglulega fræðsluviðburði sem hvetja til stöðugra umbóta í anda sjálfbærrar þróunar hins byggða umhverfis.

Í október 2020 birti Íslandsbanki sjálfbæran fjármálaramma, þann fyrsta sinnar tegundar á Íslandi en ramminn nær meðal annars utanum fjármögnun grænna bygginga.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka:

„Íslandsbanki leggur áherslu á að vera hreyfiafl til góðra verka og bjóða upp á vörur sem hvort í senn uppfylla þarfir viðskiptavina okkar og hafa jákvæð umhverfis- og samfélagsleg áhrif. Græn húsnæðislán á hagstæðum kjörum sem bankinn kynnti í síðasta mánuði eru liður í þessari vegferð en við viljum ýta undir fjárfestingu í vistvottuðu húsnæði. Enn sem komið er eru hlutfallslega fáar vistvottaðar byggingar á Íslandi í samanburði við nágrannalöndin en viðbúið að eftirspurn eftir slíku húsnæði haldi áfram að vaxa. Hlutverk Grænnar byggðar við fræðslu og rannsóknir á sviði sjálfbærrar þróunar á húsnæðismarkaði er mikilvægur liður í að þessi markaður þroskist og við erum stolt af því að styðja við þeirra góða starf með þessum hætti."

Þórhildur Fjóla Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Grænnar byggðar:

„Gífurleg fjárfesting liggur í fasteignum á heimsvísu og um helming allrar auðlindanýtingar má rekja til byggingariðnaðarins. Innan Evrópubandalagsins er kolefnisspor byggingariðnaðarins um 35% af heildarlosun.  Aðild Íslandsbanka að Grænni byggð er merki um þá bylgju vitundarvakningar um burði fjárfesta og fjármálageirans til að beita sér fyrir sjálfbærari byggingariðnaði og rekstri bygginga. Grænni byggð fagnar því að fá til liðs við sig jafn sterkan aðila og Íslandsbanka sem fyrsta aðilann úr fjármálageiranum en aðild Íslandsbanka að Grænni byggð markar tímamót fyrir félagið, þar sem nú spanna aðildarfélög Grænni byggðar alla virðiskeðjuna í byggingariðnaði. Við hjá Grænni byggð gerum miklar væntingar til samstarfsins enda er samráð og samvinna hagaðila árangursríkasta aðferðin til framfara í átt að raunverulegum breytingum og sjálfbærari byggð."