Íslandsbanki var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur til að greiða Steingrími Wernerssyni tæpar 399 milljónir króna með vöxtum. Í dómnum kemur fram að svo virðist sem verðbréfamiðlari hjá Glitni hafi tekið peningana út af persónulegum bankareikningi Steingríms án vitneskju hans árið 2006 og millifært yfir á reikning Milestone. Steingrímur átti á þessum tíma Milestone að stærstum hluta með bróður sínum Karli Wernerssyni. Sama dag og millifærslan var gerð seldi Milestone öll hlutabréf sín í Glitni og keypti hlutabréf bankans í Sjóvá.

Steingrímur óskaði eftir upplýsingum um það hver hafi heimilað millifærsluna sem hafi verið gerð án hans vitneskju. Í dómnum kemur fram að verðbréfamiðlari hafi séð um millifærsluna. Hann hafði hins vegar hvorki skriflegt umboðs frá Steingrími né mundi hann eftir því að hafa rætt við hann í síma um málið.

Í dómnum segir orðrétt:

„Stefndi hefur, m.a. með vitnaskýrslu verðbréfamiðlara hjá stefnda sem gaf fyrirmæli um hina umþrættu millfærslu leitast við að renna stoðum undir þá málsvörn sína að millifærslan hafi verið gerð að beiðni stefnanda og með vitund hans. Fram kom m.a. í skýrslutökum miðlarans að millifærslur væru ávallt gerðar að beiðni viðskiptavina og það ætti einnig við um viðskipti stefnanda. Hann hefði þó ekki haft undir höndum sérstak skriflegt umboð til þess að millifæra einstakar færslur af einakreikningi stefnanda inn á annan reikning o gekki muni hann heldur eftir símtali frá stefnanda með ósk um millfærslu af reikningi hans. Vitnið tók fram að viðskiptin færu venjulega fram í gegnum síma. Þá kom fram að hann hefði ekki getað aflað afrits af upptöku af samtali við stefnanda.“