Íslandsbanki greiðir 10 milljarða króna fyrir nýtt hlutafé í Byr hf., að því er kemur fram í skýrslu stjórnar og forstjóra Byrs í ársreikningi fyrir síðasta ár. Auk þess hlutafjár kaupir Íslandsbanki hlutafé í eigu Fjármálaeftirlitsins og slitastjórnar Byrs sparisjóðs. Það er alls 7.762 milljónir króna að nafnverði. Af því heldur fjármálaráðuneytið um 900 milljónir, eða 11,6% hlut.

Hingað til hefur ekki verið upplýst um kaupverð á Byr. Íslandsbanki vildi ekki upplýsa Viðskiptablaðið um endanlegt kaupverð á Byr og ítrekaði fyrri afstöðu að það verði ekki gert fyrr en samþykki eftirlitsaðila fyrir kaupunum liggur fyrir. Þó er ljóst, í kjölfar birtingar á ársreikningi Byrs, að það er að minnsta kosti 10 milljarðar króna. Við þá upphæð bætist sú sem greidd er fyrir hlutafé fjármálaráðuneytisins og slitastjórnar Byrs sparisjóðs.