Íslandsbanki hyggst hækka vexti óverðtryggðra lána á bæði breytilegum og föstum kjörum í kjölfar stýrivaxtarhækkunar Seðlabankans upp á 0,25% fyrr í maí. Breytingin tekur gildi á morgun, 1. júní.

Breytilegir vextir óverðtryggðra húsnæðislána hækka um 0,25% sem og breytilegir óverðtryggðir kjörvextir Ergo og vextir bílalána og bílasamninga.

Þá hækka fastir vextir óverðtryggðra húsnæðislána til 3 ára hækka um 0,20%, fastir vextir óverðtryggðra húsnæðislána til 5 ára hækka um 0,55%.

Í frétt á vef Íslandsbanka sem birt var á föstudaginn segir að samhliða mikilli lækkun vaxta Seðlabankans á síðasta ári hafi vextir innlána bankans lækkað almennt töluvert minna. Því gangi bankinn skemur í hækkun vaxta tiltekinna reikninga nú. Þá glími fyrirtæki mörg hver enn við afleiðingar COVID-faraldursins, sér í lagi í ferðaþjónustu. Því þykir bankanum rétt að stíga varlega til jarðar hvað hækkun almennra kjörvaxta fyrirtækja.

Meðal annarra vaxtabreytinga bankans eru að óverðtryggðir kjörvextir hækka um 0,20%, vextir helstu sparnaðarreikninga hækka um 0,10 til 0,25%, yfirdráttarvextir einstaklinga og fyrirtækja hækka um 0,25%.

Landsbankinn tilkynnti einnig í morgun að vextir bankans á óverðtryggðum breytilegum vöxtum myndu hækka í kjölfar hækkunar stýrivaxta. Hins vegar heldur Landsbankinn föstum vöxtum óverðtryggðra lána og vöxtum á verðtryggðum lánum óbreyttum.