Frá og með deginum í dag hækka vextir óverðtryggðra húsnæðislána með föstum vöxtum hjá Íslandsbanka. Vextir á lánum með föstum vöxtum til þriggja ára hækka um 0,3% en vextir á lánum með föstum vöxtum til fimm ára um 0,4%. Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka kemur vaxtahækkunin til vegna umtalsverðrar hækkunar á ávöxtunarkröfu óverðtryggðra fastra vaxta á markaði, sem leiðir af sér hærri fjármagnskostnað fyrir bankann.

Viðskiptablaðið greindi frá því í síðustu viku að Landsbankinn hafi hækkað vexti óverðtryggðra íbúðarlána. Vaxtahækkun Íslandsbanka í dag er af svipaðri stærðargráðu og sú sem varð hjá Landsbankanum.

Arion banki sagði í svari sínu við fyrirspurn Viðskiptablaðsins í síðustu viku að bankinn hefði ekki tekið ákvörðun um vaxtahækkun en að fylgst væri með stöðunni á markaði. Ný vaxtatafla Arion banka tók gildi í dag, en vextir óverðtryggðra íbúðarlána hækka ekki frá því sem áður var.

Grunnvextir óverðtryggðra íbúðarlána með föstum vöxtum til 3 ára eru því 6,80% hjá Arion banka, 7,15% hjá Íslandsbanka og 7,05% hjá Landsbankanum.