Íslandsbanki hagnaðist um 22,8 milljarða króna á síðasta ári. Dregst hagnaðurinn lítillega saman á milli ára, en árið 2013 nam hann 23,1 milljarði króna.

Arðsemi bankans eftir skatta var 12,8% á árinu samanborið við 14,7% árið 2013. Eiginfjárhlutfallið hækkaði úr 28,4% í 29,6% á milli ára og var eiginfjárhlutfall A (Tier 1) 26,5% í lok árs.

Hreinar vaxtatekjur voru 27,1 milljarður króna sem er lækkun um 4,7% á milli ára. Vaxtamunur var 3,0% og hefur nú náð stigi sem búist er við að haldist til lengri tíma. Hreinar þóknanatekjur voru 11,5% nemur hækkun þeirra 10% á milli ára. Heildareignir bankans námu 911 milljörðum króna í árslok, en þær voru 866 milljarðar ári fyrr.

Á fjórða ársfjórðungi hagnaðist bankinn um 4,6 milljarða króna samanborið við 7,7 milljarða króna ári fyrr. Arðsemi eigin fjár var 9,9% á fjórðungnum, hreinar vaxtatekjur voru 6,5 milljarðar króna og hreinar þóknanatekjur 3 milljarðar króna.

„Árið 2014 var gott ár í rekstri Íslandsbanka. Við höfum unnið markvisst að því að styrkja grunnreksturinn með kostnaðaraðhaldi og tekjuvexti. Hagræðingaraðgerðir hafa skilað árangri en kostnaður af reglulegri starfsemi lækkaði um 2% milli ára, sem er um 4% raunlækkun. Meðal aðgerða sem gripið hefur verið til eru sameiningar útibúa, endurnýjun samninga við birgja auk þess sem starfsmönnum hefur fækkað um 240 frá nóvember 2011,“ segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, um uppgjörið.