Afkoma Íslandsbanka á árinu 2010 var jákvæð um 29,4 milljarða króna og eru áætluð opinber gjöld ársins 8,1 milljarður króna. Eiginfjárhlutfall bankans var 26,6% sem er töluvert hærra en það 16% lágmark sem FME hefur sett bankanum. Arðsemi eiginfjár var 28,5%. Enginn arður verður greiddur til eigenda bankans. Ársreikningurinn er endurskoðaður og áritaður án fyrirvara af hálfu endurskoðenda bankans.

Íslandsbanki birti uppgjör sitt fyrir síðasta ár í dag. Líkt og áður segir eru áætluð opinber gjöld ársins 8,1 milljarður króna. Þar af nam áætlaður tekjuskattur 7,2 milljörðum, nýr bankaskattur 221 milljón og atvinnutryggingagjald 670 milljónum króna.

Hreinar vaxtatekjur námu 34,9 milljörðum króna samanborið við 32 milljarða á árinu 2009. Nettó tekjufærsla vegna endurmats lánasafnsins nam 14,5 milljörðum króna. Í tilkynningu frá bankanum segir að tekjufærslan sé að miklu leyti tilkomin vegna betri afkomu fyrirtækja en vænst var í upphaflegu verðmati þegar eignir voru yfirteknar frá Glitni.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir í tilkynningu að uppgjörið sýni vel að bankinn sé á góðri leið með að koma grunnrekstri sínum í eðlilegan farveg. „Þar skiptir  vinna við endurskipulagningu lánasafnsins mestu. Við erum þó enn í ólgusjó og því gott að vera með góða arðsemi, sterkt eigið fé og trausta lausafjárstöðu til að geta tekist á við þau krefjandi verkefni sem framundan eru.“

Hún segir að Hæstaréttadómar vegna gengistryggðra lána og lagasetning í kjölfarið hafi eytt talsvert af þeirri óvissu sem ríkti í upphafi árs 2010. „Hæstaréttardómar vegna gengistryggðra lána og lagasetningin sem kom í kjölfarið eyddu talsvert af þeirri óvissu sem ríkti í upphafi ársins. Fjárhagslegri endurskipulagningu einstaklinga og fyrirtækja mun að mestu leyti ljúka á árinu 2011. Í því felst mikil vinna en einnig tækifæri. Ég legg á það ríka áherslu að starfsfólk mitt sé meðvitað um að með góðri úrlausn erfiðra mála getum við byggt upp farsæl viðskiptasambönd til framtíðar. Við erum að vinna fyrir venjulegt fólk í afar óvenjulegum aðstæðum.“

Helstu niðurstöður samkvæmt tilkynning Íslandsbanka :

  • Hreinar þóknanatekjur námu 7,4 ma. kr. samanborið við 7 ma. kr. á árinu 2009.
  • Önnur fjármunagjöld námu alls 910 milljónum króna samanborið við 285 milljóna króna hagnað árið 2009. Þetta skýrist af lækkun á mati á virði eignarhluta.
  • Gengistap ársins á opinni gjaldeyrisstöðu nam 963 milljónum króna samanborið við 2,6 ma. kr. gengishagnað á árinu 2009. Gengistapið er tilkomið vegna styrkingar krónunnar á árinu 2010. Í lok desember gerði bankinn gjaldmiðlaskiptasamning til að eyða þessum gjaldeyrisójöfnuði.
  • Gjaldfært iðgjald í Tryggingasjóð innstæðueigenda og fjárfesta var 607 milljónir. Ekki er gjaldfært vegna framtíðarskuldbindinga við sjóðinn en gert er ráð fyrir að gjaldfærsla hækki umtalsvert á næsta ári í kjölfar fyrirhugaðrar lagabreytingar.
  • Kostnaðarhlutfall árið 2010 var 43,7%  samanborið við 41,3% árið 2009.
  • Heildarstærð efnahagsreiknings þann 31.12.10 var 683 ma. kr. samanborið við 717 ma. kr. í árslok 2009.
  • Arðsemi eigin fjár fyrir árið 2010 var 28,5% samanborið við 30% árið 2009.
  • Enginn arður verður greiddur til eigenda bankans árið 2011 vegna afkomu 2010.
  • Eiginfjárhlutfall (total capital ratio) í árslok var 26,6% en það lágmark sem FME hefur sett bankanum er 16%. Eiginfjárhlutfall í árslok 2009 var 19,8%.
  • Heildarútlán til viðskiptavina og fjármálafyrirtækja námu um 546 ma. kr., en innlán námu um 423 ma. kr. Heildarútlán í lok árs 2009 námu 577 ma. kr og innlán 479 ma. kr.
  • Hlutfall innlána af útlánum var 77,5% í árslok samanborið við 83% í árslok 2009.
  • Eigið fé í árslok nam 121,5 ma. kr. samanborið við 91,1 ma. kr. í árslok 2009.
  • Meðal stöðugildi samstæðunnar á árinu voru 1.080 en meðalstöðugildi voru 1.039 á árinu 2009.