Hagnaður Íslandsbanka á árinu 2009 nam tæpum 24 milljörðum króna eftir skatta og fjármagnsliði, samanborið við 2,4 milljarða árið 2008.

Þetta kemur fram í ársreikningi Íslandsbanka en rétt er að hafa í huga að árið 2009 var fyrsta heila rekstrarár bankans og eru rekstrarniðurstöður ársins á undan því ekki samanburðarhæfar þar sem þær tóku einungis til 2 ½ mánaða tímabils.

Hagnaður fyrir skatta nemur um 28,7 milljörðum króna. Tekjuskattur ársins er áætlaður 4,7 milljarðar króna, samanborið við 364 milljónir króna árið áður.

Tekjur bankans námu á árinu um 45 milljörðum króna, samanborið við 6,8 milljarða árið áður.

Eiginfjárhlutfall bankans var um 19,8% sem er hærra en það 16% lágmark sem FME hefur sett bankanum. Arðsemi eiginfjár var 30% en enginn arður verður greiddur til eigenda bankans.

Hreinar vaxtatekjur námu 32 milljarða króna. Hluti vaxtatekna er að sögn bankans tilkominn vegna verðtryggðra eigna umfram verðtryggðar skuldir en verðbólga á árinu var 8,63%. Hreinar þóknanatekjur námu 7,1 milljarði.

Hreinar fjármunatekjur námu alls 11,1 milljarði króna. Bankinn segir þær að mestu leyti tilkomnar vegna gengishagnaðar á fyrri hluta ársins sem síðan er að stærstum hluta gjaldfærður sem virðisrýrnun vegna skertrar greiðslugetu lántaka með tekjur í íslenskum krónum en lán í erlendum myntum.

„Síðasta ár einkenndist af mikilli óvissu í efnahags- og atvinnulífinu og setti það mark sitt á starfsemi bankans á árinu,“ segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka í tilkynningu frá bankanum vegna uppgjörsins.

„Undirliggjandi rekstur er traustur og hagnaður er af kjarnastarfsemi sem gerir bankann betur í stakk búinn til þess að takast á við krefjandi rekstarumhverfi. Bankinn greiðir opinber gjöld að upphæð 5.1 milljarðs króna í formi tekjuskatts og atvinnutryggingagjalds vegna rekstrarársins 2009..