Hagnaður Íslandsbanka á öðrum ársfjórðungi nam 5,4 milljörðum króna, miðað við drög að uppgjöri bankans. Arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli var 11,6% sem er umfram fjárhagsleg markmið bankans, að því er kemur fram í afkomuviðvörun Íslandsbanka.

Á fyrsta fjórðungi ársins hagnaðist Íslandsbanki um 3,6 milljarða og arðsemi eigin fjár nam þá 7,7%. Fram kemur að frávikin milli fyrsta og annars ársfjórðungs skýrist að stærstum hluta af því að bókfært virði lánasafns bankans var fært upp um 1,1 milljarð á öðrum fjórðungi. Til samanburðar færði bankinn um hálfan milljarð til gjalda í virðsrýrnun á fyrsta fjórðungi.

Afkoma Íslandsbanka var því jákvæð um 9 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins, samanborið við 131 milljóna króna tap á fyrri helmingi ársins 2020, sem mátti þó rekja að stórum hluta til 5,9 milljarða virðisrýrnunar.

Áréttað er að uppgjörið fyrir annan ársfjórðung 2021 er enn í vinnslu og getur tekið breytingum fram að birtingardegi þann 28. júlí næstkomandi.