Íslandsbanki hagnaðist um 7,1 milljarð króna eftir skatta á síðasta fjórðungi 2021 og arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli nam 14,2%, samkvæmt drögum að uppgjöri. Til samanburðar nam hagnaður bankans eftir skatta 3,5 milljörðum og arðsemi eiginfjár var 7,6% á sama tímabili í fyrra. Breytingin á milli ára skýrist helst af bættri rekstrarniðurstöðu, tekjufærslu vegna aflagðrar starfsemi og jákvæðrar virðisrýrnunar. Þetta kemur fram í afkomuviðvörun sem Íslandsbanki sendi frá sér eftir lokun Kauphallarinnar.

Sjö greiningaraðilar höfðu að meðaltali spáð 5 milljarða króna hagnaði og 9,9% arðsemi eiginfjár á fjórðungnum og því er uppgjörið talsvert yfir spám og jafnframt arðsemismarkmið bankans. Af þessum sjö gerði bjartsýnasta spáin ráð fyrir 6,4 milljarða hagnaði.

Fram kemur að frávik frá áliti greinenda skýrast af stærstum hluta af 1,1 milljarðs tekjufærslu vegna aflagðrar starfsemi og vegna jákvæðrar virðisrýrnunar sem nam um 0,6 milljörðum á fjórðungnum „og er að mestu tilkomin vegna mats bankans um heldur betri horfur í íslenskri ferðaþjónustu“. Til samanburðar færði Íslandsbanki um 1,8 milljarða til gjalda í virðisrýrnun á síðasta fjórðungi 2020 sem tengdist að mestu leyti þeirri óvissu sem uppi var vegna COVID-19 faraldursins á þeim tíma.

Rekstrartekjur bankans námu 13,1 milljarði á fjórðungnum, samkvæmt drögunum, sem er 8,8% aukning frá fyrra ári. Þar af námu hreinar vaxtatekjur 8,6 milljörðum, hreinar þóknanatekjur 3,7 milljörðum og hreinar fjármunatekjur 0,7 milljörðum. Rekstrarkostnaður fjórðungsins nam 6,3 milljörðum samanborið við 6,6 milljarða á síðasta fjórðungi 2020.

Íslandsbanki áréttar að uppgjörið og kynningarefni fyrir fjórða ársfjórðung 2021 sé enn í vinnslu og geti því tekið breytingum fram að birtingardegi þann 10. febrúar næstkomandi.