Íslandsbanki hefur leyst til sín samtals 630 íbúðir frá árinu 2009, þar af voru 432 íbúðir áður í eigu einstaklinga og 198 íbúðir í eigu félaga.

Þetta kemur fram í svari Más Mássonar, forstöðumanns samskiptamála Íslandsbanka, við fyrirspurn á spyr.is . Spurningunni var beint til bankanna allra og Íbúðalánasjóðs og vildi spyrjandi vita hversu margar íbúðir þessir aðilar hefðu leyst til sín frá 1. janúar 2009.

Í svari Más segir að Íslandsbanki hafi leyst til sín 62 íbúðir árið 2009, 191 íbúð árið 2010, 167 íbúðir árið 2011 og 185 íbúðir árið 2012. Það sem af er þessu ári hefur bankinn svo leyst til sín 25 íbúðir.