Nýtt verðmat Greiningar Íslandsbanka á Landsbankanum er 85,6 ma.kr. sem jafngildir verðmatsgenginu 10,9. Þeir mæla því með að fjárfestar haldi bréfum sínum í bankanum til lengri tíma litið. Ráðgjöf þeirra til skemmri tíma er að yfirvoga bréfin í vel dreifðum eignasöfnum sem taka mið af íslenska markaðinum. Í ráðgjöfinni felst að þeir hafa trú á að bréf Landsbankans muni skila betri ávöxtun en markaðurinn í heild til skemmri tíma litið. Mikill vöxtur er í starfsemi bankans og leitar hann fjárfestingartækifæra erlendis. Sennilegt er að samstæðan muni breytast umtalsvert á næsta árinu. Verðmatið byggir á rekstrarhorfum fyrir núverandi rekstur en ekki á forsendum um ytri vöxt.

"Síðasta verðmat var gert í apríl og gaf verðmatsgengið 8,24. Frá þeim tíma hefur starfsemin vaxið hraðar en við áttum von á, sérstaklega í verkefnum utan Íslands. Rekstrarforsendur gera nú ráð fyrir mun meiri útlánum og meiri þóknunartekjum en í síðasta verðmati. Kostnaður vaxi ekki að sama skapi og því verði kostnaðarhlutfall ívið lægra en markmið bankans. Hins vegar gerum við ráð fyrir heldur minni vaxtamun en áður. Hlutabréf í eigu bankans hafa skilað miklum gengishagnaði síðustu mánuði og þá sérstaklega Burðarás. Þá hefur bankinn hafið nýja fasteignalánastarfsemi, líkt og samkeppnisaðilar hans. Nafnávöxtunarkrafa er 11,3% og breytist lítið frá síðasta verðmati, þegar gerð var 11,4% krafa. Athygli fjárfesta er vakin á næmnigreiningu á helstu forsendum verðmatsins," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.