Út er komið nýtt verðmat á Bakkavör frá greiningardeild Íslandsbanka. Niðurstaða verðmatsins er 36,5 ma.kr. sem jafngildir verðmatsgenginu 22,6. Síðustu viðskipti með bréf Bakkavarar í Kauphöll Íslands voru á genginu 26,0. Síðasta verðmat á Bakkavör frá því í apríl gaf gengið 19,8. Í ljósi verðmatsins er mælt með sölu á hlutabréfum í Bakkavör. Vegna þeirrar stöðu sem fyrirtækið er í og væntingum um yfirtöku á Geest er þó lagt til að fjárfestar markaðsvegi hlutabréf Bakkavarar.

Verðmatið byggir á sjóðstreymisgreiningu þar sem núverandi rekstur félagsins er verðmetinn. Í verðmatinu er fjárfesting Bakkavarar í Geest meðhöndluð sem órekstrartengd eign, líkt og gert var með handbært fé félagsins í verðmati frá því í apríl. "Bakkavör á enn rúmlega 39 m. pund í sjóðum og að sögn forsvarsmanna félagsins er fjármagninu ætlað að styðja frekar við vöxt félagsins á komandi mánuðum. Handbært fé félagsins er meðhöndlað sem órekstrartengd eign líkt og áður hefur verið gert," segir greiningardeild Íslandsbanka.