Íslandsbanki hlaut í dag Gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC. Gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC er veitt fyrirtækjum þar sem launamunur kynja er innan við 3,5%. Í úttektinni er gerður greinarmunur á grunnlaunum, föstum launum og heildarlaunum eftir kyni og að teknu tilliti til lífaldurs, starfsaldurs, menntunar, starfaflokks, stöðu innan fyrirtækis og vinnustunda.

Íslandsbanki hefur lagt mikla áherslu á fjölbreytni og jöfn tækifæri innan bankans og hefur með markvissum hætti aukið vægi kvenna í yfirstjórn bankans. Fram kemur í tilkynningu að ríflega helmingur stjórnenda bankans í dag eru konur. Í níu manna framkvæmdastjórn bankans eru fjórar konur og í stjórn bankans eru konur í meirihluta. Íslandsbanki hefur lagt sérstaka áhersla á leiðtogaþjálfun, lærimeistarakerfi og markþjálfun fyrir konur í bankanum með það að markmiði að styðja við starfsþróun kvenna innan bankans.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka segðir að Gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC sé mikilvægur áfangi í vegferðinni hjá Íslandsbanka að auka fjölbreytni og jafnrétti í stjórnun og starfsemi bankans. Unnið hafi verið að þessu með  markvissum aðgerðum á undanförnum misserum og er ætlunin að halda áfram á þessari braut.  Hún segist þekkja það af eigin reynslu að fyrirtæki sem leggji áherslu á fjölbreytni og jöfn tækifæri gengur betur að byggja upp öfluga liðsheild, eru með ánægðara starfsfólk og betri fyrirtækjabrag en þau fyrirtæki sem ekki eru komin þangað.  Birna hvetur því stjórnendur til þess að gefa þessum málaflokki gaum í daglegum störfum sínum.