Eignarstýring Íslandsbanka hefur gert samning um samstarf við DnB NOR Asset Management, dótturfélag norska bankans DnB NOR, um dreifingar á sjóðum og þjónustu til allra viðskiptavina. Þar er átt við fagfjárfesta, fyrirtæki og einstaklinga. DnB NOR er stærsti banki Noregs og næststærsti banki Norðurlanda. Hann er í þriðjungseigu norska ríkisins og er með efnahagsreikning upp á 260 milljarða evra.

Í tilkynningu frá Íslandsbanka kemur fram að eignarstýring Íslandsbanka hafi leitað samstarfsaðila á Norðurlöndunum síðastliðið ár til þess að byggja upp erlent vöruframboð sitt og að DnB NOR hafi verið efst á lista varðandi ákjósanlega samstarfsaðila. Samstarfið er hugsað til langs tíma enda takmarka gjaldeyrishöft nýfjárfestingar erlendis um þessar mundir. Þrátt fyrir höftin geta sparifjáreigendur og fagfjárfestar sem eiga erlendar eignir nýtt sér sjóði og þjónustu DnB NOR Asset Managment í gegnum Íslandsbanka þar sem þeir hafa rétt til endurfjárfestingar.

Eignastýring Íslandsbanka hefur undanfarin 12 ár átt í farsælu og góðu samstarfi við bandaríska eignastýringarfyrirtækið The Vanguard Group sem er annað stærsta eignastýringarfyrirtæki heims.

Í tilkynningunni segir Jörgen Hjemdal, Framkvæmdarstjóri hjá DnB NOR Asset Management, að fyrirtækið hafi fylgst með íslenska markaðinum á síðustu árum og að það telji sig hafa fundið ákjósanlegan eignarstýringaraðila til þess að byggja upp samstarf við til langs tíma.„ Við teljum að þær vörur sem við bjóðum muni henta þörfum íslenskra fjárfesta og sparifjáreigenda. Samstarfið við Íslandsbanka er mikilvægt skref í áætlunum okkar um vöxt alþjóðlega.“

Stefán Sigurðsson, framkvæmdastjóri Eignastýringar Íslandsbanka, segist ánægður og stoltur af samstarfinu og að það sé mikilvægt skref í uppbyggingu Eignarstýringar Íslandsbanka. „Við teljum að íslenskir sparifjáreigendur og fjárfestar vilji áhættudreifa eignum sínum utan Íslands í meira mæli en áður hefur tíðkast eftir að gjaldeyrishöftum verður aflétt og í því samhengi verður Norræni markaðurinn án efa mikilvægur. Okkar markmið var að finna og gera samstarfssamning við besta eignastýringaraðilann á Norðurlöndunum og þar kom DnB NOR Asset Management aftur og aftur upp á okkar greiningarlistum, enda margverðlaunaður eignastýringaraðili“.