Íslandsbanki mun gefa út tvo flokka af bankavíxlum á föstudag í næstu viku. Flokkarnir tveir verða til þriggja og sex mánaða, samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins. Hvor flokkur verður allt að 1,5 milljarðar að stærð. Kynningarefni vegna útgáfunnar hefur verið sent fagfjárfestum.

Viðskiptablaðið greindi frá því fyrir skömmu að Íslandsbanki ætli sér í útgáfu víxla. Útgáfan á föstudag verður fyrsta víxlaútgáfan sem banki ræðst í eftir hrun. Fjármálaeftirlitið hefur heimilað Íslandsbanka að gefa út víxla fyrir allt að 25 milljarða króna. Í Viðskiptablaðinu fyrir tveimur vikum var haft eftir Jóni Guðna Ómarssyni, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Íslandsbanka, að horft sé til hóflegri upphæða í fyrstu.