Íslandsbanki íhugar að sækja fjármagn til erlendra fjárfesta og gefa út skuldabréf í evrum á næstunni, segja stjórnendur hugsanlegs útboðs. Alþjóðabankarnir Calyon og CSFB munu leiða útboðið.

Bréfin verða til sjö ára og hefst salan í kjölfar fjárfestakynningar þegar markaðaðstæður leyfa.

Landsbanki Íslands lauk nýverið sölu á skulabréfum til erlendra fjárfesta að virði einn milljarður evra, sem samsvarar rúmlega 73 milljörðum íslenskra króna. Mikil eftirspurn var eftir bréfunum.

Bréf Landsbankans eru til fimm ára á breytlegum vöxtum. Vaxtabilið er á milli 21-22 punktar yfir þriggja mánaða EURIBOR-vexti. EURIBOR eru millibankavextir í Evrópu.

Landsbankinn er með lánshæfismatið A2 hjá Moody's Investors Service, einu þrepi lægra en Kaupþing banki og Íslandsbanki, sem eru með lánshæfismatið A1. Líklegt er að vaxtakjör Íslandsbanka verði örlítið hagstæðari en Landsbankans þar sem bankinn er með hærra lánshæfismat.