*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 3. mars 2006 09:31

Íslandsbanki kaupir 50,1% í Union Group AS

Ritstjórn

Íslandsbanki hf. hefur skrifað undir samning um kaup á 50,1% hlut í Union Group. Í tilkynningu félagsins kemur fram að kaupin styrkja frekar stöðu Íslandsbanka í viðskiptum með atvinnuhúsnæði, fjármögnun slíkra viðskipta með sölu til þriðja aðila, auk fyrirtækjaráðgjafar og sjóðarekstrar á sviði atvinnuhúsnæðis í Noregi.

Union Group er stærsti og leiðandi aðili í sölu, ráðgjöf og samsetningu viðskipta með atvinnuhúsnæði í Noregi. Union Group útvegar einnig fjármögnun frá þriðja aðila og rekur sjóði, með áherslu á atvinnuhúsnæði og fyrirtækjaráðgjöf á sviði fasteignaviðskipta.

Rekstrartekjur Union Group voru um 160 milljónir norskra króna árið 2005 og nam hagnaður fyrir skatta og hlutdeild minnihluta 90 milljónum norskra króna. Union Group samanstendur af Union Næringsmegling AS, Union Corporate ASA, Union Eiendomskapital AS, Union Real Estate AS og Union Marine Finance AS. Íslandsbanki hefur rétt til að kaupa þá hluti sem eftir standa á fimm ára tímabili, og eigendur minnihlutans í Union hafa rétt til að selja þá hluti sem eftir standa til Íslandsbanka á sama tímabili.

"Frá því að við keyptum KredittBanken árið 2004 og BNbank 2005, höfum við leitast að styrkja stöðu okkar í fasteignaviðskiptum og fyrirtækjaráðgjöf í Noregi. Kaupin á Norse voru fyrstu skref okkar í þá átt. Kaup okkar á 50,1% hlut í Union Group tryggir Íslandsbanka meirihluta í Union Group sem er félag í mjög góðum rekstri. Union Group hefur öfluga viðskiptavini, styrka stjórnendur, mjög samkeppnishæft starfsfólk og trygga stöðu á norska markaðnum. Íslandsbanki verður nú, með Union Group innanborðs ásamt BNbank, KredittBanken, Norse og FactoNor, öflugur þátttakandi í viðskiptum með atvinnuhúsnæði og fyrirtækjaráðgjöf á sviði fasteignaviðskipta á norska markaðnum," segir Bjarni Ármannsson, forstjóri Íslandsbanka í tilkynningu vegna kaupanna.

"Að ganga til liðs við traust og framsækið fjármálafyrirtæki sem Íslandsbanki er, mun tryggja Union tækifæri til að bjóða viðskiptavinum fleiri fjármálaafurðir, byggðar á blöndu á mismunandi eignum og fjármálavörum, og einnig að virkja saman fyrirtækjaráðgjöf okkar og getu Íslandsbanka til að afla fjárfesta. Við sjáum tækifæri fyrir okkur, starfsfólk okkar og viðskiptavini," sagði Knut Stokke, hluthafi og talsmaður Union Group.

"Íslandsbanki hefur uppi áform um að styrkja frekar fyrirtækjaráðgjöf bankans í Noregi. Með kaupum á 50,1% hlut í Union Group, erum við að mynda sterkt bandalag og treysta stöðu okkar á markaðnum sem leiðandi aðili í fjármögnun og rágjöf í viðskiptum með atvinnuhúsnæði í Noregi. Union Group mun starfa áfram sem sjálfstæð eining með áherslu á virðisaukandi lausnir fyrir viðskiptavini og hluthafa. Við munum einnig hvetja Union Group til að nýta sér tækifæri sem skapast til frekari vaxtar þegar félagið gengur til liðs við Íslandsbankasamstæðuna, ? sagði Frank O. Reite, framkvæmdastjóri Íslandsbanka í Noregi. Báðir aðilar hafa samþykkt að kaupverð á Union Group verði ekki gefið upp. Kaup Íslandsbanka á rúmlega helmingshlut í Union Group eru háð samþykki yfirvalda í Noregi og á Íslandi.