Íslandsbanki hefur leyst til sín 42% hlutafjár í Icelandair Group en átti fyrir 5%. Bankinn er því kominn með 47% hlutafjár í félaginu. Þrátt fyrir þetta verða bréfin áfram skráð í Kauphöllinni og bankinn hefur fengið undanþágu frá yfirtökuskyldu hjá FME.

Í tilkynningu frá bankanum segir að þetta muni ekki hafa nein áhrif á daglegan rekstur félagsins og að stefnt sé að því að hluturinn verði seldur aftur í opnu og gagnsæju söluferli.

Bankinn leysti bréfin til sín á genginu 4,50, sem er síðasta viðskiptagengi bréfanna. Bréfin voru til tryggingar á lánum vegna hlutabréfakaupa í Icelandair Group.

Vilji bankans stendur til þess að halda áfram vinnu með félaginu að fjárhagslegri endurskipulagningu þess í samvinnu við núverandi stjórnendur, að því er segir í tilkynningu.

Bankinn hefur fengið tímabundna undanþágu frá ákvæði um yfirtökuskyldu við 30% mörk, en atkvæðisréttur bankans mun þó miðast við 30% virkra atkvæða. Í tilkynningunni segir ennfremur að gert sé ráð fyrir að boðað verði til hluthafafundar á næstunni.