Íslandsbanki kynnti í dag nýtt snjallsímaforrit, fyrir Android og iPhone snjallsíma. Nýja appinu er ætla að einfalda millifærslur í snjallsímanum margfalt. Hægt er að nálgast stöðuna á reikningum og færa smærri fjárhæðir á þekkta viðtakendur með aðeins þremur smellum. Í tilkynningu frá bankanum segir að hraðfærsla sé ný nálgun á hefðbundnar millifærslur sem sé mun fljótlegri og sé hægt að framkvæma með örfáum smellum.

Appið virkar þannig að notendur auðkenna sig í eitt skipti í upphafi en geta eftir það nýtt sér helstu fjárhagslegu aðgerðir Appsins án þess að slá inn notendanafn og lykilorð í hvert skipti. Í stað þess þurfa þeir að staðfesta með fjögurra stafa öryggisnúmeri.

Í tilkynningunni segir að lögð sé áhersla á að tryggja öryggi notenda án þess þó að hafa áhrif á aðgengileika eða gera málamiðlun á hversu notandavænt Appið er. Þannig geti notendur einungis millifært inn á þekkta viðtakendur, sem þeir sækja beint úr Netbankanum. Upphæðartakmörk eru 15.000 kr. á sólarhring og endurnýjast sjálfkrafa á sólarhrings fresti. Upphæðartakmörk er virkt til að auka enn frekar á öryggi notenda.

Til að verjast tölvuþrjótum er auk þess tryggt að snjallsímaforritið geymir engar fjárhagslegar upplýsingar á símanum sjálfum eftir að notendur hætta í appinu í hvert skipti eftir notkun. Hægt er að sækja nýja Íslandsbanka Appið í Play Store fyrir Android tæki og í AppStore fyrir iPhone frá og með deginum í dag.