Íslandsbanki hefur lækkað vexti á nýjum verðtryggðum húsnæðislánum með föstum vöxtum með vaxtaendurskoðunarákvæði á fimm ára fresti. Þetta er þvert á vaxtaákvörðun Seðlabankans í gær sem hækkaði stýrivexti um 0,25% og fóru stýrivextir við það í 5%. Vaxtalækkun Íslandsbanka er um og yfir 1,5%.

Fram kemur í tilkynningu frá bankanum að lækkunin skýrist af góðum viðtökum á sértryggðum skuldabréfum sem hann gaf út á dögunum. Þeir taka m.a. mið af þróun vaxta á skuldabréfamarkaði og þeim kjörum sem Íslandsbanki fær á seld bréf hverju sinni.

Fram kemur í tilkynningu frá Íslandsbanka að annars vegar lækki vextir verðtryggðra húsnæðislána sem takmarkast við 70% af fasteignamati og fysta veðrétti í 4,1% í fimm ár og hins vegar vextir verðtryggðra viðbótarlána sem takmarkast við 80% af markaðsverði í 4,95% í fimm ár.