Íslandsbanki og Eimskip hafa undirritað lánssamning að fjárhæð 10 milljónir evra vegna uppbyggingar Eimskips á 10.000 tonna frystigeymslu á athafnasvæði félagsins í Hafnarfirði. Lánið er til 25 ára. Að auki var undirrituð lánalína að fjárhæð 12 milljóna evra til að styðja undir frekari vöxt félagsins. Þetta kemur fram í frétt á vef Íslandsbanka .

Í heildina nemur fjárhæðin því 22 milljónum evra en það jafngildir um 3,25 milljörðum íslenskra króna. Gert er ráð fyrir að fyrsti áfangi nýrrar frystigeymslu verði tilbúinn til notkunar næsta haust og að verkið verði fullklárað fyrir árslok. Þá er möguleiki að stækka nýju geymsluna enn frekar í áföngum um allt að 14.000 tonn til viðbótar, í samræmi við þarfir markaðarins.

„Með þessari undirritun höfum við gengið frá langtímafjármögnun verkefnisins á hagstæðum kjörum og við fögnum því. Á sama tíma erum við að ljúka við ákveðinn áfanga í uppbyggingu innviða er snúa að sjávarútveginum, sem er mikilvæg stoð í rekstri félagsins,“ segir Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips.