*

mánudagur, 27. september 2021
Innlent 2. júlí 2021 16:24

Íslandsbanki leiðir hækkanir

VÍS náði sínu hæsta gengi frá skráningu í dag en félagið hefur hækkað um 77% á síðastliðnu ári.

Ritstjórn
Kauphöllin, Nasdaq

Úrvalsvísitalan heldur áfram að ná methæðum og stendur nú í 3.247 stigum. Íslandsbanki hækkaði um 2,9% í dag, mest allra félaga Kauhallarinnar, í 1,3 milljarða króna veltu og stendur gengi bankans nú í 107 krónum á hlut, um 35% yfir útboðsgenginu. Arion banki, sem tilkynnti í gær um sölu á Valitor til Rapyd, hækkaði sömuleiðis um 1,3%. 

Síminn hækkaði næst mest eða um 2,8%. Gengi fjarskiptafélagsins endaði daginn í 11,04 krónum á hlut, það hæsta frá skráningu Símans í Kauphöllina en félagið hefur hækkað um 33,5% frá áramótum.

Vátryggingafélag Íslands, VÍS, náði einnig sínu hæsta gengi frá skráningu en félagið hefur hækkað um 77% á ársgrunni. Eftir lokun markaðar barst flöggunartilkynning frá Stefni sem er nú kominn með undir 5% atkvæðisrétt í tryggingafélaginu. Sjóðir í stýringu Stefnis seldu tvær milljónir hluti, fyrir rúmlega 35 milljónir ef miðað er við dagslokagengið á miðvikudaginn. 

Gengi Marels komst yfir 900 krónur á hlut aftur í dag en félagið hefur hækkað um tæp 7,7% í vikunni. 

Sjö félög Kauphallarinnar lækkuðu í viðskiptum dagsins og bar þar mest á Iceland Seafood og Origo sem lækkuðu um 1,3% og 1,8% hvor um sig. Viðskipti með hlutabréf þeirra voru þó af skornum skammti.