Íslandsbanki mun loka útibúunum á Höfðabakka og Granda og sameina útibúinu í Laugardal. Útibúin á Granda og Höfða voru einu útibú bankans sem ekki opnuðu þann 11. maí eftir að losað var um samkomutakmarkanir vegna heimsfaraldursins. Því verða þrjú útibú Íslandsbanka eftir á höfuðborgarsvæðinu, í Norðurturni/Smáralind, Laugardal og Hafnarfirði.

Í tilkynningu frá Íslandsbanka segir að viðskiptavinir hafa í auknum mæli nýtt sér stafræna þjónustu að undanförnu og á sama tíma hafi útibúaheimsóknum fækkað. COVID-19 hafi flýtt þeirri þróun en frá áramótum hefur notkun á bankaþjónustu í appi aukist um 400%. Þá hafi heimsóknum í útibú fækkað um allt að 70%. Efla á einstaklingsþjónustu í útibúi bankans í Laugardal en auk almennrar bankaþjónustu verður húsnæðislánaþjónusta bankans þar til húsa.

Þá verður þjónusta við lítil- og meðalstór fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu  sameinuð þann 8. júní í eina Fyrirtækjamiðstöð í Norðurturni, höfuðstöðvum Íslandsbanka. Fyrirtæki geta þó leitað í öll útibú fyrir einfalda bankaþjónustu.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka:

„Á undanförnum mánuðum hefur hegðun viðskiptavina breyst hratt og hefur COVID-19 flýtt þeirri þróun. Við sjáum mikið færri heimsóknir í útibú á sama tíma og notkun í appi margfaldast. Við leggjum áfram áherslu þróun stafrænna lausna við einföld bankaviðskipti en viljum tryggja persónulega ráðgjöf við stærri ákvarðanir. Ný þjónusta fyrir eldri borgara hefur svo sannarlega fengið góðar viðtökur og munum við halda áfram á þeirri braut. Með Fyrirtækjamiðstöð í Norðurturni og með öflugri einstaklingsþjónustu í Laugardal náum við auknum slagkrafti í þjónustu bankans.“