Í kjölfar mikillar uppsveiflu á fasteignamarkaðnum að undanförnu brenna margar spurningar á vörum fólks. Af því tilefni býður Íslandsbanki til fræðslufundar á Grand Hótel Reykjavík við Sigtún þar sem leitast verður við að svara spurningum um ástand og horfur á íbúðamarkaði. Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Íslandsbanka, mun fjalla um hvað blasi nú við í verðþróun á íbúðamarkaðinum eftir þær miklu hækkanir og breytingar í umhverfi íbúðamarkaðarins sem verið hafa að undanförnu.

Leitast verður við að svara spurningum sem brenna nú á þeim sem eru í fasteignahugleiðingum: Er rétt að kaupa núna eða á að bíða og leigja, er hagkvæmt selja núna og leigja um hríð eðia jafnvel kaupa og leigja út? Fjallað verður um alþjóðlega þróun íbúðaverðs og hvað sú þróun getur sagt til um stöðu og framvindu íbúðamarkaðarins hér á landi. Björn Þorri Viktorsson, formaður Félags fasteignasala, mun fjalla um hlutverk fasteignasala og ábyrgð þeirra gagnvart kaupendum og seljendum og Björn Sveinsson, útibússtjóri hjá Íslandsbanka ræðir valmöguleika í húsnæðislánum. Öllum viðskiptavinum Íslandsbanka er boðið á fundinn og fer skráning þátttöku fram á heimasíðu Íslandsbanka www.isb.is og í þjónustuveri bankans í síma 440 4000. Fundurinn verður haldinn í kvöld kl. 20. Fundarstjóri er Pétur H. Blöndal, alþingismaður.