Greining Íslandsbanka hefur unnið nýtt verðmat á SÍF í kjölfar þeirra breytinga sem fyrirtækið hefur gengið í gegnum síðastliðna mánuði. "Hið nýja SÍF hefur enn sem komið er ekki skilað uppgjöri og eykur það undirliggjandi óvissu í verðmatinu. Niðurstaða verðmatsins er 30,1 ma.kr. sem jafngildir verðmatsgenginu 5,1," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Þar kemur einnig fram að verðmatið byggir á sjóðstreymisgreiningu þar sem verðmæti félagsins er það sjóðstreymi sem áætlað er að reksturinn skapi til framtíðar að teknu tilliti til ávöxtunarkröfu. Í verðmatinu er eign SÍF í dótturfélaginu Iceland Seafood International meðhöndluð sem órekstrartengd eign. Í ljósi verðmatsins mælum við með því að fjárfestar haldi bréfum sínum í SÍF. Ráðgjöf okkar til skemmri tíma, þ.e. næstu 3-6 mánaða, er að fjárfestar markaðsvegi bréfin í vel dreifðum eignasöfnum sem taka mið af íslenska markaðinum.