Íslandsbanki birtir uppgjör sitt fyrir þriðja ársfjórðung á morgun, þriðjudaginn 25. október. Eins og fram kom í afkomuspá greiningardeildar KB banka, sem gefin var út 6. október síðastliðinn, gera þeir ráð fyrir að bankinn skili um 4,4 milljörðum kr. í hagnað eftir skatta á fjórðungnum og hagnaður bankans á fyrstu níu mánuðum ársins nemi því rétt tæplega 15 milljörðum króna.

Samtals áætlar greiningardeild KB banka að bankinn skili rúmlega 9,7 milljörðum króna í hreinar rekstrartekjur á fjórðungnum, þar af um 7 milljörðum kr. í hreinar vaxtatekjur. Til samanburðar námu hreinar vaxtatekjur bankans tæplega 3 milljörðum kr. á þriðja ársfjórðungi í fyrra. "Skýrast væntingar okkar um mikla aukningu vaxtatekna bæði af mikilli útlánaaukningu bankans undanfarið (meðal annars með kaupunum á BNbank) ásamt mikilli verðbólgu sem var á fjórðungnum," segir í Hálffimm fréttum greiningardeildar KB banka.