Íslandsbanki hefur sett í loftið, fyrstur íslenskra banka, snjallsímaforrit fyrir Android síma. Þetta er gert í framhaldi af opnun á nýjum farsímavef bankans í júní, m.isb.is. Innan skamms mega iPhone símtækjanotendur vænta sambærilegs forrits. Snjallsímaforritið gefur notendum nýja notendaupplifun í viðskiptum við bankann sinn. Gríðarlegur vöxtur er í sölu á Android og iPhone símum og bankinn ætlar ekki að láta sitt eftir liggja í að gera bankaviðskiptin sem þægilegust fyrir viðskiptavini sem eiga slík tæki af því er fram kemur í tilkynningu frá bankanum.

Í gegnum farsímavefinn og snjallsímaforritið geta notendur skoðað stöðu og yfirlit reikninga og kreditkorta, millifært, fengið upplýsingar um staðsetningu útibúa og hraðbanka, séð gengi gjaldmiðla og nýtt sér myntbreytu, haft samband við bankann og komið í viðskipti við Íslandsbanka. Auk þess geta notendur Android síma fylgst með Twitter færslum bankans.