*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 6. febrúar 2020 14:32

Íslandsbanki með fjórðu lægstu vextina

Með lækkun breytilegra óverðtryggðra íbúðalánavaxta jafnar bankinn vexti Brúar lífeyrissjóðs í 4. sæti í þessum flokki.

Ritstjórn
Útibú Íslandsbanka og Ergo bílalána við Suðurlandsbraut.
Haraldur Guðjónsson

Íslandsbanki lækkar útlánavexti sína þriðjudaginn 11. febrúar næstkomandi, og munu til að mynda vextir af óverðtryggðum húsnæðislánum fara undir 5% markið með lækkun um 0,20 prósentustig. Í dag eru breytilegir óverðtryggðir húsnæðislánavextir 5,15%, svo með lækkuninni fara þeir væntanlega í 4,95%, en vextir af sams konar viðbótarlánum eru nú 6,15%.

Þar með fara vextir Íslandsbanka undir breytilega óverðtryggða vexti Gildis lífeyrissjóðs sem rukkar 5,1% af grunnlánum, en 5,85% af viðbótarlánum, og rétt yfir vöxtunum hjá Brú lífeyrissjóði sem er í dag með 4,9% vexti af grunnlánum og 5,9% af viðbótarlánum.

Þar með ætti Íslandsbanki að vera í fjórða sætið yfir ódýrustu íbúðafjármögnunina af þessum flokki samkvæmt samanburði Aurbjargar, en Birta er enn með ódýrustu vextina, eða 4,1% (utan 49 þúsund króna lántökugjalds) og svo er Sparisjóðurinn mðe 4,8% vexti af grunnlánum og 5,8% vexti af viðbótarlánum.

Íslandsbanki lækkar jafnframt fleiri vexti:

  • Ergo bílalán og bílasamningar lækka um 0,25 prósentustig
  • Aðrir breytilegir vextir óverðtryggðra útlána lækka um allt að 0,25 prósentustig
  • Breytilegir innlánsvextir lækka um allt að 0,25% prósentustig