Íslandsbanki lækkar útlánavexti sína þriðjudaginn 11. febrúar næstkomandi, og munu til að mynda vextir af óverðtryggðum húsnæðislánum fara undir 5% markið með lækkun um 0,20 prósentustig. Í dag eru breytilegir óverðtryggðir húsnæðislánavextir 5,15%, svo með lækkuninni fara þeir væntanlega í 4,95%, en vextir af sams konar viðbótarlánum eru nú 6,15%.

Þar með fara vextir Íslandsbanka undir breytilega óverðtryggða vexti Gildis lífeyrissjóðs sem rukkar 5,1% af grunnlánum, en 5,85% af viðbótarlánum, og rétt yfir vöxtunum hjá Brú lífeyrissjóði sem er í dag með 4,9% vexti af grunnlánum og 5,9% af viðbótarlánum.

Þar með ætti Íslandsbanki að vera í fjórða sætið yfir ódýrustu íbúðafjármögnunina af þessum flokki samkvæmt samanburði Aurbjargar , en Birta er enn með ódýrustu vextina, eða 4,1% (utan 49 þúsund króna lántökugjalds) og svo er Sparisjóðurinn mðe 4,8% vexti af grunnlánum og 5,8% vexti af viðbótarlánum.

Íslandsbanki lækkar jafnframt fleiri vexti :

  • Ergo bílalán og bílasamningar lækka um 0,25 prósentustig
  • Aðrir breytilegir vextir óverðtryggðra útlána lækka um allt að 0,25 prósentustig
  • Breytilegir innlánsvextir lækka um allt að 0,25% prósentustig