Greining ÍSB hefur gefið út verðmat á Opnum Kerfum Group. Íslandsbankamenn meta félagið á 8,2 ma.kr. Jafngildir það verðmatsgenginu 27,3. Síðasta viðskiptagengi með bréf félagsins var 24,2. Greining ÍSB mælir því með kaupum á hlutabréfum Opinna Kerfa Group. Í eignasöfnum sem taka mið af íslenska markaðinum er lagt til að fjárfestar yfirvegi bréf sín í félaginu.

Miklar breytingar hafa orðið á Opnum Kerfum Group frá síðasta verðmati sem kom út í ágúst í fyrra (verðmatsgengi 19,0). Helstu breytingar frá síðasta verðmati eru: Hærri spá um rekstrartekjur og framlegð eftir erfiðan vetur, lægra markaðsálag (4,6% í stað 5,5%), auk þess sem samstæðan hefur breyst verulega í millitíðinni, sérstaklega með yfirtöku á Skýrr og sameiningu sænsku félaganna.