Hlutabréfaverð Íslandsbanka hefur fallið um 1,8% í fyrstu viðskiptum dagsins og er komið í 118 krónur á hlut. Gengi bankans er nú einungis 0,9% yfir söluverðinu í útboði Bankasýslu ríkisins á 22,5% hlut í Íslandsbanka sem fór fram eftir lokun markaða þann 22. mars síðastliðinn.

Söluverðið, sem nam 117 krónum, á hlut vakti mikla athygli í kjölfar útboðsins en um var að ræða 4,1% frávik frá gengi bankans við lokun Kauphallarinnar sama og útboðið stóð yfir.

Bankasýslan hefur þó bent á salan í umræddu útboði samsvaraði um 300 daga veltu með bréf í bankanum og því væri ekki óeðlilegt að verðið hafi verið lægra en á markaði fyrr um daginn.

Sjá einnig: Skortur á þekkingu hefur ráðið för

Auk þess sagði Bankasýslan að 4,1% frávikið, sem oft er kallað útboðsafsláttur, hafi verið góður árangur en í sambærilegum útboðum í Evrópu í ár, þar sem framboð nam að meðaltali aðeins 39 daga veltu, lækkaði gengið að jafnaði um 6,4% fyrir stríðsið í Úkraínu en 8,1% í útboðum eftir að stríðið hófst.

„Við teygðum okkur eins langt í þessu eins og við gátum, það er alveg á hreinu. Ef við hefðum hækkað verðið umfram 117 þá hefði verið veruleg hætta á að margir hefðu horfið frá. Ef það hefði svo spurst út þá hefðu aðrir farið að draga í land, og útboðið hefði fallið um sjálft sig. Það hefði hreinlega getað mistekist,“ sagði Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, við Viðskiptablaðið í lok síðasta mánaðar.

Hlutabréfaverð Íslandsbanka hækkaði nokkuð í kjölfar útboðsins og fór hæst í 130,2 krónur á hlut, eða um 11% yfir útboðsgengið, þann 4. apríl. Síðan þá hefur gengi bankans fallið um 9,5%.

Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 1,8% það sem af er degi en hlutabréf allra félaga á aðalmarkaði Kauphallarinnar hafa fallið í fyrstu viðskipum dagsins. Hlutabréfamarkaðar erlendis opnuðu einnig rauðir í morgun en Stoxx Europe 600 vísitalan hefur fallið um 2% og breska FTSE 100 vísitalan um 2,4%.