Hugbúnaðarhúsið Tölvumiðlun hefur undirritað samning við Íslandsbanka um innleiðingu H3 heildarlausna í mannauðsmálum. Stefnt er að því að innleiða lausnina haustið 2014 og að hún verði komin í fulla notkun í byrjun næsta árs.

Fram kemur í tilkynningu frá Tölvumiðlun að bankinn bætist í hóp ríflega 500 fyrirtækja í viðskiptum við Tölvumiðlun sem nýta sér íslenskan hugbúnað við stjórnun mannauðsmála, allt frá ráðningu til starfsloka.

Haft er eftir Hafsteini Bragasyni, mannauðsstjóra Íslandsbanka, að kerfið aðstoði stjórnendur  við utanumhald í starfsmannahaldi og starfsemi mannauðs- og launamála. Þá geri sjálfsafgreiðslugáttir lausnarinnar stjórnendum og starfsmönnum kleift að afgreiða sjálf fjölda mála og minnka þar með álag á mannauðssviðinu.