*

sunnudagur, 21. júlí 2019
Innlent 22. desember 2011 16:42

Íslandsbanki og Eykt samþykkja nauðasamninga Höfðatorgs

Samningurinn felur í sér að Íslandsbanki og Eykt eignast allt hlutafé í Höfðatorgi. Smærri kröfurhafar áttu ekki aðild að nauðasamningunum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Íslandsbanki hf. og Eykt ehf. hafa samþykkt nauðasamning fyrir fasteignafélagið Höfðatorg ehf. Samningurinn felur í sér að Íslandsbanki og Eykt eignast allt hlutafé í Höfðatorgi. Aðrir kröfuhafar en Íslandsbanki og Eykt voru smærri og áttu ekki aðild að nauðsamningnum. Íslandsbanki var aðal lánveitandi Höfðatorgs og hefur nú eignast 72,5% hlutfjár. Eykt, sem átti kröfu á hendur Höfðatorgi vegna áfallins byggingarkostnaðar við verkefnið, eignast 27,5% hlutafjár.

Stjórn félagsins skipa nú tveir fulltrúar Íslandsbanka og einn fulltrúi Eyktar.

Fulltrúar Íslandsbanka eru óháðir bankanum eins og vinnureglur bankans mæla fyrir um. Eykt mun áfram hafa umsjón með rekstri félagsins og annast útleigu fasteigna þess.

Höfðatorg er fasteignafélag sem hefur til leigu um 47.000 fermetra af skrifstofuhúsnæði á Höfðatorgsreit og í nálægum byggingum við Skúlatún og Borgartún í Reykjavík. Þar af eru útleigðir 40.000 fermetrar. Félagið stóð í miklum framkvæmdum á þeim tíma þegar fjármálakerfið hrundi og hækkuðu erlend lán þess þá mikið. Í kjölfarið ákváðu samningsaðilar að ljúka við byggingu turnsins á Höfðatorgi og var það gert í sameiningu. Í tilkynningu frá Íslandsbanka segir að það sé mikill áfangi að ljúka fjárhagslegri endurskipulagningu Höfðatorgs eins og nú hafi verið gert.

Aðrir kröfuhafar Höfðatorgs en Íslandsbanki og Eykt sem nú eiga félagið munu fá kröfur sínar greiddar. Íslandsbanki stefnir að því að selja sinn hlut í félaginu.

Stikkorð: Íslandsbanki Eykt Höfðatorg