Bæði Íslandsbanki og Landsbanki tilkynntu í dag um lækkun vaxta en rúm vika er síðan meginvextir Seðlabankans voru lækkaðir um 0,75%.

Fastir vextir óverðtryggðra húsnæðislána Íslandsbanka lækka um 0,75 prósentustig og breytilegra um 0,5 prósentustig. Yfirdráttarvextir einstaklinga og fyrirtækja lækka um allt að 0,75 prósentustig. Innlánsvextir veltureikninga hjá Íslandsbanka lækka ekki og að jafnaði lækka innlán töluvert minna en útlán. Algeng lækkun sparnaðarreikninga er 0-0,4 prósentustig.

Verðtryggðir húsnæðislánavextir bankans lækka jafnframt. Fastir vextir um 0,35 prósentustig og breytilegir um 0,25 prósentustig. Ergo bílasamningar og bílálán lækka að meðaltali um 0,5 prósentustig og óverðtryggðir kjörvextir til fyrirtækja um 0,4 prósentustig. Vaxtabreying Íslandsbanka tekur gildi þann 4. júní næstkomandi.

Landsbankinn hefur tilkynnt um 0,50% lækkun á breytilegum og föstum vöxtum óverðtryggðra íbúðalána. Vextir verðtryggðra íbúðalána lækka um 0,30 prósentustig.

Yfirdráttarvextir Landsbankans lækka um allt að 0,75 prósentustig og innlánsvextir lækka um 0,05 - 0,75 prósentustig. Ný vaxtatafla Landsbankans tekur gildi 1. júní næstkomandi og munu nánari upplýsingar koma fram þar.

Arion banki hefur ekki ennþá tilkynnt um nýja vaxtatöflu.