*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 10. nóvember 2011 11:39

Íslandsbanki og Miðengi eiga 27 félög

Íslandsbanki segir það geta verið villandi að telja kennitölur í stað félaga í eigu bankans. Lítil starfsemi er í sumum félaganna.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Íslandsbanki og Miðengi, dótturfélag bankans, eiga saman 27 félög. Miðengi á þau flest, eða 22, en Íslandsbanki 5.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsbanka vegna frétta um að bankarnir hafi í sinni eigu 137 félög sem eru í óskyldri starfsemi.

Miðengi fer með eignarhald og umsýslu fyrirtækja í eigu Íslandsbanka. Í tilkynningu frá bankanum kemur fram að í sumum tilvikum eru fleiri en ein kennitala tengd félagi og því geti verið villandi að telja kennitölur frekar en hvert félag fyrir sig. Að auki sé nokkuð um að lítil starfsemi sé í félögum í eigu bankans, svo sem í fasteignafélögum.

Af 27 félögum Íslandsbanka og Miðengi eru 11 fasteignafélög. Stærsta einstaka rekstrarfélagið sem er í fullri eigu bankans er Jarðboranir en félagið er í söluferli hjá Miðengi, samkvæmt tilkynningu frá Íslandsbanka.

Arion Banki og Landsbankinn sendu frá sér sambærilega tilkynningu í gær um fjölda félaga í þeirra eigu.