Íslandsbanki opnaði í dag nýtt útibú á Fiskislóð 10 á Granda en þar sameinast útibúin í Lækjargötu og Eiðistorgi. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Sameinað útibú mun þjóna sama svæði og útibúin á Eiðistorgi og Lækjargötu hafa þjónustað hingað til. Við val á staðsetningu var litið til aðgengis viðskiptavina en útibúið liggur nálægt stórum umferðaræðum. Þá segir í tilkynningunni að hönnun útibúsins gefi möguleika á að nýta það fyrir kynningar fyrirtækja og félagasamtaka.

„Útibúið er öflugt að stærð og eitt af stærri fyrirtækjaútibúum Íslandsbanka. Sameining útibúanna endurspeglar þá stefnu bankans að auka hagkvæmni en efla þjónustu um leið. Með nýju útibúi erum við að svara kalli viðskiptavina sem í auknum mæli kalla eftir sérhæfðri ráðgjöf en kjósa sjálfsafgreiðslu við einfaldari færslur,“ segir Una Steinsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Íslandsbanka.