Íslandsbanki opnaði í dag endurbætt útibú að Suðurlandsbraut, en þar hafa nú tvö útibú sameinast, útibúið á Kirkjusandi og á Suðurlandsbraut. Útibúið hefur hlotið nafnið Laugardalur og er stærsta fyrirtækja- og einstaklingsútibú Íslandsbanka. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Íslandsbanka.

Björn Sveinsson er nýr útibússtjóri, Vilborg Þórarinsdóttir og Þórður Kristleifsson aðstoðarútibússtjórar og Dröfn Guðnadóttir viðskiptastjóri einstaklinga.

Una Steinsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptabankasviðs segir við tilefnið: „Útibúið okkar í Laugardalnum verður öflug fjármálamiðstöð fyrir bæði fyrirtæki og einstaklinga og allt kapp verður lagt á að mæta kalli og kröfum viðskiptavina okkar um góða og vandaða þjónustu.  Um leið og stafrænni vegferð fleygir áfram þá hafa kröfur um persónulega og  góða þjónustu ekkert minnkað en breyst.

Í Laugardalnum verður boðið upp á sérfræðiþekkingu hjá vottuðum fjármálaráðgjöfum útibúsins, samhliða því að auka möguleika á allri sjálfsafgreiðslu.  Þannig verða sérstakir hraðþjónusturáðgjafar til þjónustu reiðubúnir til að aðstoða viðskiptavini svo hægt sé að gera heimsóknina í útibúið sem þægilegasta og mikið verður lagt upp úr ánægjulegri upplifun viðskiptavina.  Eftir þessa breytingu er Íslandsbanki núna að starfrækja fimm öflug útibú á stór-Reykjavíkursvæðinu, í Laugardalnum, á Granda, Höfðabakka og Norðurturninum og í Hafnarfirði”.