Fyrirtækjaþjónusta Íslandsbanka í London var ráðgjafi breska stórfyrirtækisins Premier Foods plc við sölu á teframleiðsludeild þess til indverska fyrirtækisins Apeejay International Tea Limited, fyrir 80 milljónir punda, eða sem nemur um 8,6 milljörðum íslenskra króna. Tim Owen, yfirmaður fyrirtækjaþjónustunnar í London, segir að um sé að ræða mjög mikilvægan samning. "Þetta er í fyrsta skipti sem íslenskur banki sér um ráðgjöf fyrir erlent fyrirtæki af þessari stærðargráðu," segir hann, en Premier er svokallað FTSE 250 fyrirtæki.

"Þetta er líka í fyrsta skipti sem Premier selur hluta af starfsemi sinni og það sem er ekki síst mikilvægt er hversu stór upphæðin er; 80 milljónir punda. Premier er eitt af 30 þekktustu vörumerkjum Bretlands og allir neytendur þar í landi hafa átt viðskipti við fyrirtækið," segir Owen. Hann hefur unnið fyrir fyrirtækið í tíu ár og segir að samstarfið hafi gengið afar vel fyrir sig nú sem fyrr. Premier-menn hafi verið mjög ánægðir með vinnu starfsfólks bankans og verðið sem fékkst fyrir eininguna. "Síðustu verkefni okkar hafa krafist mikillar fjölhæfni. Íslandsbanki fjármagnaði yfirtöku kanadíska sjávarútvegsfyrirtækisins FPI Limited á breska fyrirtækinu The Seafood Company Ltd fyrir stuttu og vann einnig við kaup Norvikur á breska fyrirtækinu Continental Wood Products," segir hann.

Verkefnið var flókið að sögn Owens, enda var nauðsynlegt að skera teframleiðslu Premier frá annarri drykkjaframleiðslu fyrirtækisins, auk þess sem taka þurfti tillit til fjölmargra atriða vegna þess að viðskiptin voru milli bresks og indversks fyrirtækis. Kaupandinn, Apeejay International Tea Limited, er dótturfélag Apeejay Surrendra Group. Kaupverðið verður reitt fram í reiðufé og mun Premier nota tekjurnar til að lækka skuldir. Inni í sölunni eru fólgin vörumerkin Typhoo, London Fruit & Herb og Lift og verksmiðja Permier í Moreton í Wirral í Englandi, þar sem 249 starfsmenn vinna. Á árinu 2004 námu sölutekjur rúmum 70 milljónum punda og rekstrarhagnaður 11,2 milljónum, að teknu tilliti til stjórnunarkostnaðar. Bókfært verð hinna seldu eigna nam 25,7 milljónum punda 2. júlí 2005.