Íslandsbanki hefur lokið við að safna 27 milljónum dollara í hlutafé og breytanleg skuldabréf fyrir alþjóðlega sjávarútvegsfyrirtækið Atlantis. Samhliða hlutafjáraukningu sá Íslandsbanki um endurfjármögnun á lánum félagsins sem og rekstrarfjármögnun að fjárhæð USD 18 milljónir til uppbyggingar félagsins. Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka sá um ráðgjöf í tengslum við endurfjármögnun fyrirtækisins.

Atlantis sérhæfir sig í lax- og túnfiskeldi auk þess sem það selur bæði eigin framleiðslu og annarra. Starfsstöðvar fyrirtækisins eru í öllum heimsálfum, ef undan er skilið Suðurskautið, m.a. með laxeldi í Chile, auk þess að vera aðili að túnfiskeldi í Króatíu og Mexíkó. Höfuðstöðvar Atlantis eru á Íslandi og í heild starfa alls 180 manns hjá fyrirtækinu víðsvegar um heiminn.

Þrátt fyrir að félagið sé eingöngu þriggja ára gamalt hefur uppgangur og vöxtur þess gengið vonum framar og hagnaður verið af rekstri fyrirtækisins frá upphafi. Nýgengin hlutafjáraukning og endurfjármögnun Atlantis gefur félaginu slagkraft og tækifæri til að halda áfram hinum öra vexti sem einkennt hefur félagið frá upphafi segir Óli Valur Steindórsson, forstjóri Atlantis. ?Félagið mun halda áfram á þeirri braut sem það hefur rutt, halda áfram þeirri vinnu að tryggja félaginu hráefni til sölu á helstu mörkuðum þess með því að fjárfesta í uppbyggingu á þeirri starfsemi sem er fyrir hendi. Atlantis mun einnig horfa til frekari fjárfestinga í eldisfyrirtækjum sem eru í traustum rekstri.?