Íslandsbanki seldi í gær 2% af hlutafjáreign sinni í Icelandair Group. Miðað við gengi félagsins við lok markaða í Kauphöllinni í gær er söluandvirði hlutanna um 975 milljónir króna. Bréf í Icelandair hækkuðu um 2,7% í viðskiptum í gær.

Í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag er greint frá fundi sem Íslandsbanki hélt fyrir fagfjárfesta á fimmtudag í síðustu viku. Þar var kynnt mat sérfræðinga í greiningardeild bankans á horfum á íslenska hlutabréfamarkaðinum. Sérstaklega var talað um kauptækifæri í Icelandair Group og Högum. Sagt var að fjárfestar hafi mögulega vanmetið hagstæð flugvélakaup Icelandair Group í desember í markaðsvirði félagsins.

Á fimmtudag og föstudag, eftir fund bankans, hækkuðu hlutabréf í Icelandair Group um nærri 6%. Miklar hækkanir hafa einkennt hlutabréfamarkaðinn allan í byrjun árs og hefur Icelandair hækkað um rúm 15% í janúar.

Hluturinn kominn í 7%

Jón Guðni Ómarsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Íslandsbanka, segir að greiningardeild bankans hafi ákveðið að fjalla einnig um Icelandair Group á fundinum vegna þess að hlutur bankans í félaginu var komin niður í um 7%. Þegar mest lét átti bankinn um 20% hlut en seldi helminginn af því í júni 2012 og seldi sig síðan niður í um 7% í desember síðastliðnum.

„Þess vegna ákvað greiningardeildin að fjalla einnig um Icelandair Group í þessari umfjöllun um markaðinn í heild. Þess var gætt að ekki væri um að ræða verðmat og ekki var mælt með kaupum. Það var sérstaklega tekið fram að bankinn ætti 7% hlut,“ segir Jón Guðni í samtali við Viðskiptablaðið. Hann segir að greining á félaginu hafi að mestu falist í að draga saman þær upplýsingar sem eru opinberar um félagið og bera saman við önnur flugfélög. Sá samanburður sýni að félagið sé lágt skráð. „Það var einnig nefnt að hugsanlega væri ekki búið að taka fyllilega tillit til flugvélakaupanna á markaði.“

Spurður nánar um hvort fundurinn og upplýsingarnar sem þar komu fram samrýmist sölu bankans skömmu síðar, einkum í því ljósi að á fundinum var bent á lágt gengi hlutabréfa í Icelandair Group sem hækkaði í kjölfarið, segir Jón Guðni að þetta sé vandmeðfarið.

„Bankinn hefur einnig upplýsingaskyldu um að fjalla um markaði. Það sem dregið var fram í skýrslunni [sem útdeilt var á fundinum] var kennitölusamanburður. En þetta er vandmeðfarið. Það er verið að veita upplýsingar til fjárfesta án þess þó að verið sé að mæla með kaupunum og á sama tímanum er tekið skýrt fram að Íslandsbanki sé eigandi,“ segir Jón Guðni en fundir með fjárfestum í viðskiptum við bankann eru haldnir reglulega.

Ekki langtímafjárfestir

Íslandsbanki gefur ekki upp hvenær afgangur af hlutabréfaeign í Icelandair Group verður seldur en Jón Guðni segir að því ferli verði haldið áfram.

„Við erum sífellt að mynda okkur skoðun á því hvernig verðlagningin á bréfunum er á hverjum tíma. Félaginu hefur gengið gríðarlega vel undanfarin misserum. Það sem við glímum við er það að stefna bankans er ekki sú að vera langtímafjárfestir í hlutabréfum heldur að selja sig út. Hins vegar er umhverfið þannig að fjárfestingarkostir eru takmarkaðir. Almennt séð er hækkun á eignaverði og það verðum við að samrýma,“ segir hann.