Lokuðu útboði á hlutum Íslandsbanka í Icelandair Group hf. lauk í dag. Fyrir útboðið nam eignarhlutur bankans í félaginu 19,99% og hugðist bankinn bjóða 5% til sölu, eða 250 þúsund hluti. Í tilkynningu frá Íslandsbanka kemur fram að um þreföld umframeftirspurn var eftir hlutunum og var ákveðið að taka tilboðum fyrir 514.460.932 hlutum eða 10,29% af útgefnu hlutafé. Heildarsöluvirði útboðsins nemur um 3,3 milljörðum króna. Eftir söluna nemur eignarhlutur Íslandsbanka í Icelandair Group hf. 9,7%.

Eftirfarandi var haft eftir Jóni Guðna Ómarssyni, framkvæmdastjóra Fjármálasviðs Íslandsbanka í tilkynningu:

„Það er afar ánægjulegt að sjá þann mikla áhuga sem fjárfestar sýna félaginu sem endurspeglast í fjölda tilboða í útboðinu. Vegna umframeftirspurnar var ákveðið að selja stærri hlut en lagt var upp með í upphafi. Eftir söluna mun Íslandsbanki ekki þurfa á undanþágu að halda frá FME til að halda á hlut í félaginu þar sem eignarhluturinn er kominn undir 10%. Þetta er í samræmi við stefnu bankans að minnka eignarhlut sinn í félögum sem eru í óskyldum rekstri.”