Sölu Íslandsbanka á 5% hlut af 20% hlutafjáreign í Icelandair Group sem staðið hefur yfir síðustu tvo daga lauk í dag klukkan fjögur. Íslandsbanki hefur ekkert gefið út um niðurstöðu hlutafjársölunnar en hún er tilkynningaskyld.

Samkvæmt heimildur Viðskiptablaðsins var ráðist í söluna vegna áhuga á markaði eftir bréfunum og hafi eftirspurnin eftir eign Íslandsbanka verið í samræmi við það. Ekki liggur fyrir á hvaða gengi bréfin seldust.

Eftir því sem næst verður komist liggur það við dagslokagengi hlutabréfa Icelandair Group í dag. Þau enduðu í 6,45 krónum á hlut.

Íslandsbanki áskildi sér rétt til að selja meira en 5% í félaginu. Miðað við markaðsverðmæti Icelandair Group í lok dags og sölu á 5% hlut má ætla að söluandvirðið hafi numið um 1,6 milljörðum króna.

Íslandsbanki átti fyrir söluna tæpan 20% hlut í Icelandair Group.