Útlit er fyrir að ríkisstjórnin ætli að selja eftirstandandi 65% hluta sinn í Íslandsbanka að fullu á næstu tveimur árum „ef markaðsaðstæður verða ákjósanlegar“. Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2022.

Ríkissjóður horfir til þess að „hægt verði að selja um helming útistandandi hlutar ríkisins á virði sem væri nálægt markaðsvirði miðað við núverandi gengi, eða um 75 milljarða króna“. Ríkissjóður seldi 35% hlut í Íslandsbanka í hlutafjárútboði í júní fyrir 55,3 milljarða króna en síðan þá hefur hlutabréfaverð bankans hækkað um 57%.

Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri Grænna kom fram að ríkissjóður muni „halda áfram að draga úr eignarhaldi í fjármálakerfinu og nýta ábatann til uppbyggingar innviða“.

Sjá einnig: 169 milljarða halli á ríkissjóði

Ríkissjóður gerir einnig ráð fyrir um 158% hærri arðgreiðslum frá Íslandsbanka og Landsbanka en gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun í vor. Samtals er gert ráð fyrir að bankarnir skili ríkissjóði 20,3 milljörðum króna í arð á næsta ári en til samanburðar var gert ráð fyrir 7,9 milljarða arðgreiðslu frá bönkunum tveimur í fjármálaáætlun. Áætluð arðgreiðsla frá Íslandsbanka eykst úr 3,4 milljörðum í 7,0 milljarða og hjá Landsbankanum eykst fjárhæðin úr 4,5 milljörðum í 13,3 milljarða.