Íslandsbanki hefur í dag lokið sölu á 63,5% hlut bankans í Borgun hf. til Salt Pay Co Ltd. Samhliða sölu Íslandsbanka kaupir Salt Pay Co einnig eignarhlut Eignarhaldsfélagsins Borgunar slf. og mun í kjölfar kaupanna fara með 95,9% hlutafjár í Borgun.

Kaupverðið er trúnaðarmál en salan mun hafa óveruleg áhrif á rekstur bankans. Leiðrétt fyrir rekstri Borgunar hefðu þóknanatekjur samstæðu Íslandsbanka fyrir árið 2019 dregist saman um 13%, rekstrargjöld lækkað um 13% og kostnaðarhlutfall lækkað um fjögur prósentustig. Salan hefur jákvæð áhrif á eiginfjárhlutföll bankans og lausafjárhlutföll lækka lítillega, en eru þó enn vel yfir markmiðum bankans og kröfum eftirlitsaðila.

Formlegt söluferli á hlut bankans í Borgun hófst í upphafi árs 2019, sbr. tilkynningu Íslandsbanka dags. 11. janúar 2019 og var kaupsamningur undirritaður 11. mars síðastliðinn. Um var að ræða opið og gagnsætt söluferli í umsjón svissneska ráðgjafarfyrirtækisins Corestar Partners og fyrirtækjaráðgjafar Íslandsbanka.